Færsluflokkur: Bloggar

Getur eftirlíkingin tekið fyrirmyndinni fram?

SkvísanEins og svo oft áður var ég á vesturbæjarvappi eftir háttatíma í nótt, og lenti á spjalli við einn af mínum bestu nágrönnum. Sem betur fer var þetta spjall alveg einhliða því spjallfélaga mínum var mikið niðri fyrir. Ég smókaði sem sagt og hann söng eins og hann ætti lífið að leysa. Starrasöngur er oftar en ekki eins konar einvígi. Einn tekur syrpu, annar í næsta garði svarar eftir bestu getu, og svona getur þetta gengið tímunum saman á meðan ég og aðrir hverfiskettir hlusta í andakt, við eigum ekki breik í þessar samræður. Næsti nágranni minn velur sér oft hæsta sætið í sjónvarpsloftneti hinum megin við götuna og þenur sitt svarta brjóst eins og honum einum er lagið.

Þetta skipti hlýtur hann að hafa verið verulega ánægður með tilveruna, þvílíkir voru tilburðirnir. Ég missti samt fyrst kjálkann þegar hann gerði "dirrindí" eins og sönn heiðlóa og þegar hann bætti svo við kröftugu "KRÍÍÍJA" eins og ekkert væri sjálfsagðara fór ég alvarlega að velta því fyrir mér hvort það væri verið að gera grín að mér. Já, ég spáði virkilega í það hvort það væri til meiri fuglasöngsnörd en ég, og hann væri búinn að splæsa saman upptöku af helstu söngstjörnum íslenskrar náttúru.

Ég tók mig á, ýtti paranojunni til hliðar og hélt áfram að njóta í andakt og nágranni minn verðlaunaði mig með besta starrakonsert hingað til, þar sem bættist við máfagarg og söngstíll alls konar fugla sem ég hef aldrei heyrt.

En hvernig er það...  Allir elska lóuna, og margir kunna að meta kríuna með sína krefjandi raust...  brabra er alltaf heimilislegt, álftirnar kvaka og krummi krunkar úti... En ætli starrar hafi enga eigin söngva???

En mér er sama, ég sæi lóu, kríu, endur, álftir og hvað þá krumma REYNA að ná starranum í söngsnilld - HANN RÚLAR!

Það er ómögulegt að ná góðri mynd af starranum í loftnetinu svo ég læt hér fylgja mynd af brjóstgóðri skvísu sem blikkaði mig í bænum um helgina (æ þínk æ lofjú)


Skrugguskrækur lætur til sín taka - Óboðnum gestum úthýst prontó!

SkrugguskrækurÞegar ég lagðist á koddann í gærkvöldi heyrði ég í músíkalska starranum í næsta garði og hugsaði með mér... Ef ég væri spörfugl myndi ég syngja nákvæmlega svona... Ef ég gæti... Ef ég væri fugl! Fallegar, tónhreinar melódíur, hver þeirra blæbrigðaríkt tilbrigði við þá næstu á undan og enduðu flestar í bráðskemmtilegu skrafi, fullu af fuglahúmor dauðans. Nágrannafuglinn minn er snilldarfugl.

Seinna um nóttina, snemma morguns raunar, kvað aldeilis við annan tón... Starrinn skrækti nú háværum, gjallandi, hvellum og dauðans ákveðnum rómi, gargandi og ógnandi... "Köttur á ferð" hugsaði ég og viti menn, augnabliki síðar heyrði ég hringla dauft í kattabjöllunni. Bölvaður slöttólfurinn hraktist til í garðinum undan kröftugum loftárásunum og lúskraðist loks bleyðulega yfir girðinguna á bak við bílskúrinn.

Starrinn þveraði garðinn eins og orrustuþota og skrækti eins og hann ætti líf sitt að leysa á aðvífandi bíl sem krossaði lofthelgi hans úr hinni áttinni. Þessi fugl passar sitt torf fyrir allan peninginn.

...Ef ég væri fugl :)


Sveitasæla, trippatvist og fuglafans - Krumma rúllað upp!

TryppiHvítasunnuhelgarferðir hafa oftast verið kaldari en í ár, þessi var nefnilega bæði hlý og að öllu leyti frábærlega heppnuð. Slappað af fram í fingurgóma en að sjálfsögðu aðeins farið um sveitina með myndavélina að vopni. Margt bar fyrir linsu, meðal annars þetta spræka tryppi sem sprettir þarna úr spori niður hlíðina til að athuga hvort hin hrossin séu að fá eitthvað gott.

Þessu sinni var ekkert í boði en ég gæti vel hugsað mér að tæla það til mín seinna, þótt ekki væri til annars en að smella fleiri myndum af þessum fríða fola og hinum hrossunum úr flottasta stóði sem ég hef augum litið.

Fuglasöngurinn í sveitinni var sko ósvikinn! Lóur, spóar, hrossagaukar, þrestir, maríuerlur, steindeplar, stelkir, svanir, grágæsir og einstöku hrafn skemmtu allan sólarhringinn og býfuglar sveimuðu yfir flatmagandi mannverunum. Til að kóróna fuglafánuna hélt drifhvítur rjúpukarri til í grenndinni og flaug ropandi upp með miklu írafári ef tvífætlingar gerðu sig heimakomna.

Smáfuglarnir í borginni skjálfa þegar krummi krunkar, en hetja helgarinnar var hugdjarfur steindepill sem flaug eins og tundurskeyti með fjaðrafoki á eftir hrafninum sem vogaði sér of nærri hans umráðasvæði. Sá svarti varð að lúffa, Steini rúlaði þetta sinn.


Jarpa sófasettið var eins töfrateppi, og ekkert múður þetta sinn!

FriðsemdHún virkar kannski svolítið luraleg á þessarri mynd en saman þóttum við glæsileg tilsýndar þar sem við töltum umhverfis Rauðavatnið í draumaveðri í gærkvöldi. Við vorum þrír félagarnir, allir velríðandi, allir jörpu og auðvitað langflottastir.

Bara svo það sé á hreinu, þetta er semsé þrjóska hryssan sem stympaðist sem mest, og henti annarri jarpri af baki sér fyrir sosum viku. Í gær var hún eins og hugur minn og það er fátt skemmtilegra en að ríða út þegar reiðskjótinn bregst vel við öllum fyrirmælum, en sýnir þó stöðuga löngun til að láta gamminn geysa. Í hvert skipti sem meðreiðarsveinar mínir nálguðust fann ég hvernig hún gaf í, og ef töltið dugði ekki til (hún er frekar smágerð) vildi hún fara á stökk... en bara ef ég leyfði það.


Loksins... Eitt - eitt fyrir Vesturbænum. Týrólasöngvari, eat my shorts!

Ég gerði mína daglegu fuglasöngskönnun um sexleytið í morgun og viti menn... Sat ekki nema lítið sætt smáfuglapar á aspargrein og sá stutti alveg á BLÍSTRINU! Ég þarf endilega að komast að því hvaða smáfuglategund getur framleitt svona hljóð. Söngmeistarinn í Vogunum má algjörlega fara að herða sig.

SambasnillingurinnÞessi nýaðkomni snillingur ískraði, sífraði, tísti, skrafaði, skrækti, klikkaði, smellti, gaggaði og tikkaði af þvílíkri list að öllum áhyggjum var af mér létt. Hann hefur alveg greinilega eytt vetrinum í myrkviðum Amazon meðal páfagauka, piparfugla og perluhænsna. Á leið sinni í Vesturbæinn hefur hann auðheyranlega millilent í djassbúllum í Chicago til að pikka upp nýjustu taktana og percussiontæknina sem hann blandaði á ólýsanlegan hátt við samba, salsa og frumskógardrumbur. Þvílíkur virtúósi!

Einmanalegur sílamáfur hnitaði hátt yfir görðunum en í þetta skiptið sló hann hvorki beyg í smáfuglahjörtu né söngelskra fuglaskoðara. Suðræni sambasnillingurinn missti sko ekki taktinn og feilnótur voru ekki heldur á takteinum.

Læf is gúdd in Westtown.


Sundkóngurinn - Persónulegt met í ólympískri keppnislaug

tofulopp-syndandiAnnars hljómar sundKÓNGUR eitthvað ekki eins vel og sundDROTTNING. Látum það samt standa. Drengurinn stakk sér sem sagt í Laugardalslaugina og fleytti hreinlega kerlingar á kraftmiklu bringusundi, heilar 10 ferðir í ólympískri keppnislaug... Þetta var frómt frá sagt frækilega syntur hálfkílómetri! Allavega var ég lafmóður... Eftir báða sprettina!

Þarna sló ég sem sagt alveg áreiðanlega persónulegt met í 2x250m bringu. Ég tók ekki tímann og veit aukinheldur ekki hvað fyrra metið mitt var, ég bara fann það á mér!  Ég hef örugglega aldrei verið eins lengi að synda þessa vegalengd... Eða jafn fljótur Whistling


Hvar er fuglasöngurinn? Er bara 'GARG' og 'KRUNK' í boði í Vesturbænum?

Eftir vangaveltuna mína um fuglasönginn hef ég nú ákveðið að bíða eftir að trén laufist áður en ég fer að æsa mig alvarlega. En ítrekaðar morgunrannsóknir mínar hafa leitt eftirfarandi í ljós:

  1. Mávagarg
  2. Krunk
  3. Ískur í ryðgaðri rólu

Mávatríóið 'Killaz' að chilla á Tjörninni...Ekkert af þessu gefur góð fyrirheit um að ég geti vaknað upp við neitt í líkingu við fagurgalann frá þarsíðasta bloggi!

Snemma í vikunni settist ég út á svalir fyrir kl. 6 um morguninn og áttaði mig á því að líklega hefði ég vaknað upp við hlakkandi og gaggandi mávagargið sem bergmálaði í hverfinu. Skömmu síðar sveimaði skimandi sílamávur yfir og skannaði garðana. Næsta fiðurfé var einmanalegur og óttasleginn starri á miklum hraða í vesturátt sem sleikti trjátoppana... Mikið að flýta sér, alveg steinhljóður! Því næst kom dimmraddað "KRÚNK" úr þarnæstu götu, svona eins og til að tryggja að allir nærstaddir spörfuglar hefðu sig hæga. Þeir hafa greinilega fengið skilaboðin. Málið var útrætt! Ég fór hryggur í bragði inn og fékk mér "kríu" þangað til vekjaraklukkan galaði.

Ég vona svo sannarlega að þetta umsátursástand sé ekki viðvarandi í fuglaríki vesturbæjarins en lofa að halda áfram að fylgjast með.

Sorry með þetta nöldur, ég bara fíla fuglasöng. Mávahlátur og krunk líka, en ekki ef það útrýmir restinni. Ég hef ekki heyrt svo mikið sem ískur í ryðgaðri rólu undanfarna morgna!


Sorrý, en þetta er auðvitað bara tær og hrein snilld / Reykjavík - Belfast

 


Fagurt galaði fuglinn sá... Eins og ryðguð róla!

Þar sem ég stóð, gestkomandi úti á svölum í Vogunum um daginn að fá mér "frískt loft", barst að eyrum mér sá fallegasti fuglasöngur sem ég hef evvör heyrt. Þarna fléttaði sannkallaður flaut-, tíst-, dilli-, blístr-, fíólín og pikkalóstroffu-snillingur saman ótrúlegustu krúsídúllur, tónstiga- og ryþmasamsetningar svo unun var að heyra. Sem einlægur fuglaáhugamaður fór ég strax að reyna að berja þennan melódíumeistara augum og varð steinhissa þegar ég uppgötvaði að þetta var bara ósköp  "venjulegur" starri! Þeir eru reyndar klárar hermikrákur og eiga það til að líkja eftir ýmissa kvikinda hljóðum og þar á meðal annarra fugla söng.

Þessi tiltekni þarna í Vogunum hefur greinilega búið við rætur Ólympsfjalls í vetur en þar ku næturgalar syngja fegurra en á öðrum stöðum í veröldinni. Nágrannar hans hafa áreiðanlega lika talið söngþresti, lævirkja, blæsöngvara, turtildúfur, týrólakór og synfóníuhljómsveit.

Ryðguð rólaÞessi vesturbæjarstarri hérna á myndinni kemur reglulega í garðinn hjá mér ásamt spúsu sinni að næra sig og finna efnivið í hreiður. Ef dæma má af söng hans, eða öllu heldur skrækjum eða skríkjum hefur hann ekki víða ratað heldur alið "manninn" í vesturbænum, í grennd við RYÐGAÐA RÓLU! Ég ætti reyndar ekki að vera að kvarta því þessi grey eru bjartasta vonin í mínu hverfi! Hvar er fuglasöngurinn sem ég vandist í vestur/miðbænum? Ég settist út á svalir í morgun í algjörri þögn og hefði gefið mikið fyrir eins og einn ryðgaðan róluskræk!

Eina fuglahljóðið sem ég heyrði var mávagarg úr fjarska. Eitt mávagarg, nota bene! Eru mávar, hrafnar og kettir virkilega búnir að útrýma söngfuglunum í vesturbænum?


Niðurlag og eftirmálar burtreiðarinnar ógurlegu

Hestastelpan knáa, sú sem stangaði mölina svo fast að sverustu karlmenni kiknuðu í hnjáliðunum, tók sér mig til fyrirmyndar, reis úr rotinu eins og Lasarus forðum og skellti sér umsvifalaust aftur á bak rokgjörnu merinni. Mér hefði nú alveg fundist dynjandi lófatak vera viðeigandi, og jafnvel hefði einn og einn getað hrópað: "ÞAU LENGI LIFI"... en svona nokk er líklega daglegt brauð í þessum dal. Við máttum kannski þakka fyrir að vera ekki beðin um "ENCORE!" Ég fyrir mitt leyti hefði alveg látið uppklapp sem vind um eyru þjóta!

Forug upp fyrir haus stýrðum við jóum okkar hnakkakert til föðurhúsanna og það skal alveg játast að allur sunnudagurinn og meira til fór í að sleikja sárin og ná upp nokkurn veginn eðlilegri hreyfigetu í limina stirðu... Þeir fúnuðu allavega ekki í þessarri svaðilför.

Á mánudaginn uppgötvaði ég mér til hrellingar að ég var búinn að týna aðal-lyklakippunni... Þessarri með bankaauðkennisdæminu og vinnulyklunum sem ég má ALLS ekki glata. Eftir að hafa rakið öll mín spor um bæinn þveran og endilangan var aðeins eitt eftir. Í kvöld sneri ég til baka á glæpavettvanginn, þar sem Drauma-lánshesturinn grýtti mér svo fólskulega í fósturhörðina og viti menn... Þar var dýrindis kippan alls óskemmd... Mikið var ég feginn.

Rauður-skeiðariRétt áður en ég fann kippuna fann ég ryðgaða skafla-lukkuskeifu sem ég ætla að negla upp þegar ég finn mér góðan stað til að negla hana upp á. Þarf að fara að viða að mér kolryðguðum hóffjöðrum.

Það var eins gott að ég hafði myndavélina ekki með mér í þessa ólánsför, enda hefði ég af skiljanlegum ástæðum aldrei getað myndað öll fjörugustu atvikin. Þessvegna er ferðasagan að mestu skreytt friðsældar- og makindamyndum úr ólátahesthúsinu í Víðidalnum. Kúrekinn frá síðasta bloggi er sem sagt ekki ég!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband