Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Má taka myndir af fólki í bænum og birta á vefnum?

Mér finnst gaman að taka myndir "úr launsátri." Þ.e.a.s. að mynda fólk og mannlíf á förnum vegi án þess að biðja viðfangsefnin um leyfi. Sko það býr ekkert annað að baki en bara það að svoleiðis myndir finnst mér skemmtilegastar. Ég meina, legsteinar, járnkallar og grindverk eru fínt myndefni en lifandi fólk er samt eitthvað svo... meira lifandi!

KaffihusahetjurEn oft velti ég fyrir mér... Ég gæti verið að gera saklausu fólki ægilegan grikk með myndbirtingunni. Hvað ef þessir kaffihúsagestir eiga að vera í vinnunni? Eða bara eru í góðum fíling að gera eitthvað sem enginn má vita með einhverjum sem ekki má hitta? Ég skaut þau á ská yfir hornið á Austurvelli þar sem ég sötraði einn ískaldan með sultardropa í nefinu. Hefði ég átt að rölta yfir og biðja um leyfi? Á ég að "blura" andlitin? Eða bara að halda mig við myndastyttur og girðingar?


Myndbyggingin er ekki að slá í gegn

Já, veggurinn með skófirnar var alveg greinilega ekki að gera sig. Maður er alveg að afslöra sig hérna, blogg er jú skrifað til að vera lesið. Það er alveg agalegt að vera dagskrárstjóri á svona ópersónulegri og illskilgreinanlegri bloggsíðu þegar tilgangurinn er óljós enda ritstjórinn alveg á bullandi undanhaldi í dalandi áhorfi. Þrettán innlit á hálfum degi er auðvitað bara til háborinnar skammar.

Hvað er til ráða? Það er auðvitað alltaf rakin leið til árangurs  í hvaða bloggsamfélagi sem er að draga taum óverjandi málefna eða mæla óferjandi málstað bót. Árangur = heiftúðugar orðahnippingar með blóðslettum og innyflum. Það er sniðugt að hömpast á samkynhneigðum, hossa ódráttum eða hampa kennurum, maður hefur séð þetta allt slá í gegn. UmkomulausFatlaðir og nýbúar eru auðvitað alveg skotheld umræðuefni til að vekja ólgu og það hefur oft gefist vel að ræða um fjármála- og fjárglæframenn frá ýmsum sjónarhólum.

Æj ég held mig við göngutúrinn minn. Um miðbik ferðarinnar hitti ég þennan umkomulausa ræfil. Maður má auðvitað ekkert aumt sjá og ég finn alltaf til með þessum vesling. Líkamstjáningin hrópar hástöfum "WÆ MÍ?"... Eða kannski er hann bara að hugsa "Hversvegna er ég með svona lítinn?" Hvað sem málið er hefur hann samúð mína. Allar heimsins áhyggjur eru of þungar fyrir einn ryðgaðan járnkarl.


Tíhí... Voðalega nenniði að lesa þetta :)

Veggur með skófumSkv. nýjustu talningu eru heilir SEX búnir að slást í för með mér í þessu miðbæjarrölti svo ég verð víst að halda áfram ferðasögunni. Ég nenni að skrifa á meðan þið nennið að lesa en átta mig ALGJÖRLEGA á því að ég þarf eitthvað að rífa upp tempóið ef ég á ekki að missa föruneytið. Nei, grín, "pas på", ég er bara eitthvað að skvetta úr sálarkoppunum hérna. Góðu finniði eitthvað skemmtilegra að lesa :)

Sjáiði bara... Hver fílar svona skrýtnar myndir af gömlum, steyptum vesturbæjarvegg með skófum? Ég á fleiri ef einhver réttir upp hönd :P


Séra Jakob... Takk fyrir spjallið, það hjálpaði mér að setja ýmislegt í rétt samhengi

Krossglugginn

Þar sem ég mundaði vélina fyrir framan þetta krossmark, rétt fyrir utan kirkjugarðinn, kom aðvífandi lágvaxinn maður. Ég bauð líklega góðan daginn hálf afsakandi, svona rétt eins og ferðamenn gera gjarnan þegar þeir eru að þvælast með myndavél á maganum þangað sem þeir eiga ekkert erindi. Allavega fannst honum ástæða til að róa mig með því að segja eitthvað, svo ég færi nú ekki alveg í hnút. "Er tu að mynda vegginn?" sagði sá aðvífandi. "Já" sagði ég, en fannst ég verða að réttlæta veru mína þarna aðeins betur og sagði honum því  frá henni Klóthildi vinkonu minni og hvernig það bar til að ég þekkti hana.

Við stóðum svo þarna í nepjunni og spjölluðum drykklanga stund um sameiginlega nunnuvini okkar, bæði frá sjónarhóli litla guttans, og unga prestsins, sem kom hingað frá Hollandi fyrr meira en hálfri öld. Hann sagði mér frá fyrstu jólunum sínum á þessu nýja, skrýtna landi, og þegar systir Gabríela mundaði stóra sprautu þegar hann sárlasinn og sársvekktur gat ekki stjórnað kórunum sem hann hafði lofað. "Þú verður verri af þessu, en svo verðurðu betri" sagði systir Gabríela. Virðingin og þakklætið var augljóst í orðum hans þegar hann lýsti fyrir mér hvernig hún kvaddi þennan heim. "Hún gabbaði okkur öll", sagði hann.

Það var búið að kaupa farmiða til Danmerkur fyrir hana, en hún ein vissi að annað ferðalag var fyrir höndum... Klukkan fjögur eina nóttina bað hún um prest, sagðist vera að fara að deyja. Hún vildi sjá til þess að farmiðinn hennar yrði endurgreiddur svo hægt væri að verja peningunum í eitthvað mikilvægara. Systir Gabríela var auðvitað að fara á fund síns Herra... Með frímiða upp á vasann og síðasta verkið hennar var að sjálfsögðu að gefa öðrum.

Sjálfur trúi ég ekki á umbun í efra, og játa fúslega að ég get ekki státað af neinu í líkingu við þetta stórkostlega, fórnfúsa fólk. En í stórmannlegu lítillæti sínu eru þau að mínu mati algjörar fyrirmyndar mannverur. Takk fyrir spjallið. Það var gott innlegg í tilveruna.

Amen. 


Systir Klóthildur... Takk fyrir síðast :)

Ég brá fyrir mig betri fætinum í gær. Axlaði myndavélina og rölti stefnulaust í vestnorðaustur frá híði mínu. Aðalmarkmiðið var einvera og mér fannst alveg ótrúlegt hvað markmiðið misheppnaðist eitthvað ánægulega hvað eftir annað. Fyrsta stoppið var auðvitað kirkjugarður, ekkert annað hefði hæft markmiði mínu betur. Rölti þar um og las á legsteina... Fátt kveikir betri, sterkari og eitthvað  öruggari jarðtengingu þegar hugurinn er á róti en að skoða legsteina. Í þessum tiltekna kirkjugarði hvíla eintómar nunnur, fyrir utan einstöku prest, og biskupar eru þar líka á stangli.

Eins og flestir vita taka nunnur sér nafn Maríu, þegar þær bindast Jesú, og svo er splæst einhverju nafni aftan við, áreiðanlega nafni einhverrar fyrirmyndarkonu, kannski nunnu! Enda eru nunnur í mínum huga, algjörlega án nokkurs vafa, fyrirmyndar konur. Ég var fimm ára þegar ég vissi það.

Þarna í nunnukirkjugarðinum "hitti" ég sem sagt gamla vinkonu sem ég kynntist, þótt ég hitti hana örsjaldan. Ég var á þeim aldri sem maður er skotfljótur að ákveða hvað er varið í, og þegar maður bindur órjúfandi tryggðabönd á augabragði. Systir María Klotilde var lágvaxin og gildvaxin og brosið hennar var svo breitt og hlýtt að það hefur ekkert fölnað í hugskoti ljóshærða hnokkans í meira en 40 ár.

Þótt ég skilji alls ekki allt sem að baki býr, finnst mér mögnuð tilhugsun að þessar kaþólsku konur fórnuðu öllum veraldlegum "gæðum", rifu sig upp með rótum og komu án nokkurða skilyrða til þessa hrjóstruga, fjarlæga lands í norðrinu til þess eins að gefa, líkna og þjóna, tryggar og trúar, til dauðadags. Ég pældi auðvitað ekki í öllu þessu þá. Allt var stórmerkilegt í bláum augum hins fimm ára pjakks. En samt held ég að ég hafi skynjað, og jafnvel skilið þetta allt betur en nú. Fimm ára erum við nefnilega ótrúlega skynugar skepnur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband