Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Sveitasæla, trippatvist og fuglafans - Krumma rúllað upp!

TryppiHvítasunnuhelgarferðir hafa oftast verið kaldari en í ár, þessi var nefnilega bæði hlý og að öllu leyti frábærlega heppnuð. Slappað af fram í fingurgóma en að sjálfsögðu aðeins farið um sveitina með myndavélina að vopni. Margt bar fyrir linsu, meðal annars þetta spræka tryppi sem sprettir þarna úr spori niður hlíðina til að athuga hvort hin hrossin séu að fá eitthvað gott.

Þessu sinni var ekkert í boði en ég gæti vel hugsað mér að tæla það til mín seinna, þótt ekki væri til annars en að smella fleiri myndum af þessum fríða fola og hinum hrossunum úr flottasta stóði sem ég hef augum litið.

Fuglasöngurinn í sveitinni var sko ósvikinn! Lóur, spóar, hrossagaukar, þrestir, maríuerlur, steindeplar, stelkir, svanir, grágæsir og einstöku hrafn skemmtu allan sólarhringinn og býfuglar sveimuðu yfir flatmagandi mannverunum. Til að kóróna fuglafánuna hélt drifhvítur rjúpukarri til í grenndinni og flaug ropandi upp með miklu írafári ef tvífætlingar gerðu sig heimakomna.

Smáfuglarnir í borginni skjálfa þegar krummi krunkar, en hetja helgarinnar var hugdjarfur steindepill sem flaug eins og tundurskeyti með fjaðrafoki á eftir hrafninum sem vogaði sér of nærri hans umráðasvæði. Sá svarti varð að lúffa, Steini rúlaði þetta sinn.


Jarpa sófasettið var eins töfrateppi, og ekkert múður þetta sinn!

FriðsemdHún virkar kannski svolítið luraleg á þessarri mynd en saman þóttum við glæsileg tilsýndar þar sem við töltum umhverfis Rauðavatnið í draumaveðri í gærkvöldi. Við vorum þrír félagarnir, allir velríðandi, allir jörpu og auðvitað langflottastir.

Bara svo það sé á hreinu, þetta er semsé þrjóska hryssan sem stympaðist sem mest, og henti annarri jarpri af baki sér fyrir sosum viku. Í gær var hún eins og hugur minn og það er fátt skemmtilegra en að ríða út þegar reiðskjótinn bregst vel við öllum fyrirmælum, en sýnir þó stöðuga löngun til að láta gamminn geysa. Í hvert skipti sem meðreiðarsveinar mínir nálguðust fann ég hvernig hún gaf í, og ef töltið dugði ekki til (hún er frekar smágerð) vildi hún fara á stökk... en bara ef ég leyfði það.


Loksins... Eitt - eitt fyrir Vesturbænum. Týrólasöngvari, eat my shorts!

Ég gerði mína daglegu fuglasöngskönnun um sexleytið í morgun og viti menn... Sat ekki nema lítið sætt smáfuglapar á aspargrein og sá stutti alveg á BLÍSTRINU! Ég þarf endilega að komast að því hvaða smáfuglategund getur framleitt svona hljóð. Söngmeistarinn í Vogunum má algjörlega fara að herða sig.

SambasnillingurinnÞessi nýaðkomni snillingur ískraði, sífraði, tísti, skrafaði, skrækti, klikkaði, smellti, gaggaði og tikkaði af þvílíkri list að öllum áhyggjum var af mér létt. Hann hefur alveg greinilega eytt vetrinum í myrkviðum Amazon meðal páfagauka, piparfugla og perluhænsna. Á leið sinni í Vesturbæinn hefur hann auðheyranlega millilent í djassbúllum í Chicago til að pikka upp nýjustu taktana og percussiontæknina sem hann blandaði á ólýsanlegan hátt við samba, salsa og frumskógardrumbur. Þvílíkur virtúósi!

Einmanalegur sílamáfur hnitaði hátt yfir görðunum en í þetta skiptið sló hann hvorki beyg í smáfuglahjörtu né söngelskra fuglaskoðara. Suðræni sambasnillingurinn missti sko ekki taktinn og feilnótur voru ekki heldur á takteinum.

Læf is gúdd in Westtown.


Sundkóngurinn - Persónulegt met í ólympískri keppnislaug

tofulopp-syndandiAnnars hljómar sundKÓNGUR eitthvað ekki eins vel og sundDROTTNING. Látum það samt standa. Drengurinn stakk sér sem sagt í Laugardalslaugina og fleytti hreinlega kerlingar á kraftmiklu bringusundi, heilar 10 ferðir í ólympískri keppnislaug... Þetta var frómt frá sagt frækilega syntur hálfkílómetri! Allavega var ég lafmóður... Eftir báða sprettina!

Þarna sló ég sem sagt alveg áreiðanlega persónulegt met í 2x250m bringu. Ég tók ekki tímann og veit aukinheldur ekki hvað fyrra metið mitt var, ég bara fann það á mér!  Ég hef örugglega aldrei verið eins lengi að synda þessa vegalengd... Eða jafn fljótur Whistling


Hvar er fuglasöngurinn? Er bara 'GARG' og 'KRUNK' í boði í Vesturbænum?

Eftir vangaveltuna mína um fuglasönginn hef ég nú ákveðið að bíða eftir að trén laufist áður en ég fer að æsa mig alvarlega. En ítrekaðar morgunrannsóknir mínar hafa leitt eftirfarandi í ljós:

  1. Mávagarg
  2. Krunk
  3. Ískur í ryðgaðri rólu

Mávatríóið 'Killaz' að chilla á Tjörninni...Ekkert af þessu gefur góð fyrirheit um að ég geti vaknað upp við neitt í líkingu við fagurgalann frá þarsíðasta bloggi!

Snemma í vikunni settist ég út á svalir fyrir kl. 6 um morguninn og áttaði mig á því að líklega hefði ég vaknað upp við hlakkandi og gaggandi mávagargið sem bergmálaði í hverfinu. Skömmu síðar sveimaði skimandi sílamávur yfir og skannaði garðana. Næsta fiðurfé var einmanalegur og óttasleginn starri á miklum hraða í vesturátt sem sleikti trjátoppana... Mikið að flýta sér, alveg steinhljóður! Því næst kom dimmraddað "KRÚNK" úr þarnæstu götu, svona eins og til að tryggja að allir nærstaddir spörfuglar hefðu sig hæga. Þeir hafa greinilega fengið skilaboðin. Málið var útrætt! Ég fór hryggur í bragði inn og fékk mér "kríu" þangað til vekjaraklukkan galaði.

Ég vona svo sannarlega að þetta umsátursástand sé ekki viðvarandi í fuglaríki vesturbæjarins en lofa að halda áfram að fylgjast með.

Sorry með þetta nöldur, ég bara fíla fuglasöng. Mávahlátur og krunk líka, en ekki ef það útrýmir restinni. Ég hef ekki heyrt svo mikið sem ískur í ryðgaðri rólu undanfarna morgna!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband