Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Milljarður fyrir Maríuerlu?

IMG_4772Ég átti stefnumót við foss um helgina, var búinn að "plotta" á korti hvernig ég gæti keyrt og svo gengið að honum til að sjá og mynda úr nýrri átt. Eftir töluverðan villuakstur um ALLA fjallvegina á milli Þverárhlíðar og Norðurárdals lagði ég bílnum við keðjulæst hlið og arkaði svo af stað til fundar við fossinn með myndavél að vopni. Vegurinn lá upp að "sumarbústað" í byggingu sem ég hefði á einhverjum öðrum degi dáðst að, fyrst vegna staðarvalsins, sem er nánast fullkomið, glæsivillan kúrir milli klettabelta með yfirsýn yfir Norðurá, Grábrók og Baulu, og svo vegna arkítektúrsins. En þennan dag fylltist ég eiginlega bara viðbjóð yfir þessum ljóta flein í dásamlegu landslaginu. Ekki misskilja. Ég unni þeim þess algjörlega sem eru svo lánsamir að geta, fyrir verðmæti verka sinna, hugvits, snilli eða elju byggt sér svo glæst hús á svo fögrum stað, ég er bara búinn að læra undanfarna mánuði að oft er skammt á milli þokka og óþokka!

IMG_4755Ég ráfaði umhverfis slotið eins og túristi sem hefur stolist inn fyrir múrana umhverfis kastala rokkstjörnu og gat ekki varist þeirri tilfinningu að skammlaust, yfirgengilegt óþokkaóhóf skini úr hverjum drætti. Ógeðstilfinningin yfirskyggði þó algjörlega fegurðarskynið þegar ég sá að á bak við þrjátíu fermetra þreföldu rúðurnar flögraði maríuerla, sem hafði greinilega smogið inn um einhverja glufu á nýbyggingunni í leit að æti handa ungum sínum. Húsið var rammlæst og þar að auki þrælmerkt öryggisþjónustu sem fylgdist áreiðanlega með ferðum mínum í gegn um slatta af öryggismyndavélum sem vakta þennan ömurlega minnisvarða um fjárglæfrabruðl. Ég gat eiginlega ekki farið að brjóta þrjátíu fermetra rúðu fyrir spörfugl, það gekk ekki upp í mínum kolli.

IMG_4756Ég hryllti mig og hélt svo áfram ferð minni í leit að fossinum íðilfagra, maríuerlan hlyti að komast út sömu leið og hún komst inn. Fossinn Glanni olli mér ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn og skolaði úr mér gremjuna yfir fanganum í höll græðginnar.  Ég fékk gesti í heimsókn í sveitina mína um kvöldið og ákvað að fara næsta dag til að sýna þeim fossinn, veðrið var næstum eins gott og daginn áður.  Við fórum að sjálfsögðu til að skoða húsið og sáum að maríuerlan var því miður enn föst í prísundinni. Þarna flaug þessi ræfill á milli risavaxinna gluggagaflanna og rataði ekki út.

IMG_4768Veit einhver hver á þennan andstyggðar kofa? Ég er viss um að viðkomandi mun bruna rakleiðis upp í Borgarfjörð til að hleypa út maríuerlunni svo hún geti vitjað um dauðu ungana sína. Í leiðinni getur hann vonandi stoppað í glufurnar með peningaseðlum svo þessi hundruða milljóna fuglagildra haldi ekki áfram að veiða.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband