Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sveitasæla, trippatvist og fuglafans - Krumma rúllað upp!

TryppiHvítasunnuhelgarferðir hafa oftast verið kaldari en í ár, þessi var nefnilega bæði hlý og að öllu leyti frábærlega heppnuð. Slappað af fram í fingurgóma en að sjálfsögðu aðeins farið um sveitina með myndavélina að vopni. Margt bar fyrir linsu, meðal annars þetta spræka tryppi sem sprettir þarna úr spori niður hlíðina til að athuga hvort hin hrossin séu að fá eitthvað gott.

Þessu sinni var ekkert í boði en ég gæti vel hugsað mér að tæla það til mín seinna, þótt ekki væri til annars en að smella fleiri myndum af þessum fríða fola og hinum hrossunum úr flottasta stóði sem ég hef augum litið.

Fuglasöngurinn í sveitinni var sko ósvikinn! Lóur, spóar, hrossagaukar, þrestir, maríuerlur, steindeplar, stelkir, svanir, grágæsir og einstöku hrafn skemmtu allan sólarhringinn og býfuglar sveimuðu yfir flatmagandi mannverunum. Til að kóróna fuglafánuna hélt drifhvítur rjúpukarri til í grenndinni og flaug ropandi upp með miklu írafári ef tvífætlingar gerðu sig heimakomna.

Smáfuglarnir í borginni skjálfa þegar krummi krunkar, en hetja helgarinnar var hugdjarfur steindepill sem flaug eins og tundurskeyti með fjaðrafoki á eftir hrafninum sem vogaði sér of nærri hans umráðasvæði. Sá svarti varð að lúffa, Steini rúlaði þetta sinn.


Ekki af baki dottinn - EÐA HITT ÞÓ HELDUR!

Rólegheitahross?Hver er munurinn á staðfestu og heimsku? Eftir undanfarnar ófarir fannst mér að munurinn myndi einmitt kristallast í því að gera fleiri tilraunir með Draumahestinn "góða." Með því myndi ég akkúrat fara yfir línuna og laun heimskunnar yrðu í MINNSTA kosti brotið stolt. Það væri þó alls ekki það alvarlegasta, ég var bara ekki reiðubúinn að gjalda fyrir þvermóðskuna með brotnum beinum. Ónei heimskur er maður altént ekki. Bara staðfastur, viljasterkur, svolítið þrjóskur og kannski pínkulítið þver.

Bóndinn í ólátahesthúsinu á líka ýmsa valkosti og einn af þeim er þetta gæðablóð á myndinni hérna. Sjáið bara hvað hún er róleg og slök. Gæflyndið og afslappelsið uppmálað og hrekkleysið skín úr augunum. Þessi elska var sem sagt handsömuð, reiðtygjuð, hnökkuð og girt og síðan teymd frá húsi, ásamt stallsystur sinni. Að fenginni reynslu þótti nefnilega öruggara að fara með þær í nálægt gerði og byrja á smá hlýðniæfingum áður en farið væri á bak, svona rétt til að blessuð hrossin hefðu það ALVEG á hreinu hver væri húsbóndinn!

Það var byrjað á þessarri jörpu, sem er hið besta reiðhross (sófasett) en svolítið óþekk að koma sér af stað. Svolítið MIKIÐ óþekk á köflum! Sú brúna var fest við gerðið utanvert á meðan. Það skipti engum togum að undir eins þegar keyrinu var veifað til að koma þeirri jörpu úr sporunum ærðist brúna gæðablóðið, reif í tauminn sem var festur við hringgerðið og gerði sitt besta til að draga allt heila járnaruslið á eftir sér upp í Breiðholt! Ég róaði merina, losaði, og teymdi hana aðeins frá gerðinu. Allt gekk betur eftir það og síðan fékk hún að spretta svolítið úr spori nokkra hringi. Hún þurfti ekki mikla hvatningu, því get ég lofað.

Ég játa alveg að þegar hér var komið sögu var ég bara miðlungi bjartsýnn um afdrif mín, en lét engan bilbug á mér finna. Maður verður jú að reyna að halda í karlmennskuímyndina sem maður hefur komið sér upp og borgað fyrir með aumum rassi. Ég var búinn að fatta að það þyrfti ekki mikið að örva þetta brúna taugabúnt svo ég reið talsvert á eftir þeirri jörpu, sem þurfti svolítið á hvetjandi gómhljóðum og pískasveiflum að halda. Þetta leit bara vel út en þegar ég nálgaðist meðreiðarfraukuna var skyndilega eins og brúna kappreiðamerin mín fengi pata af heilli ljónahjörð á hælunum á okkur.

Hryssuskömmin sveigði með snöggu viðbragði út af reiðgötunni, stökk út í móann og hentist eins og trylltur vísundur yfir grjót, runna og tré. Ég skal trúa ykkur fyrir því að maður hugsar ekki margt þegar maður er að reyna að skipta á milli þess að róa trylltan vísund og hanga á hryggnum á honum en mér varð fljótlega ljóst að þetta myndi ekki enda nema á einn veg. Enn annar fundur við fósturjörðina var óumflýjanlegur og það var ekki sérlega spennandi tilhugsun á þessum hraða. Mér tókst svona nokkurn veginn að velja lendingarstaðinn en ekki lendingarstílinn. Í þann mund er öxlin á mér tók við öllum þunga líkamans sá ég út undan mér að jarpa meðreiðardaman mín var akkúrat að stinga sér i mölina mér til samlætis. Þvílík samstaða segi ég nú bara!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband