Færsluflokkur: Lífstíll

Skothelda fuglabúrið að Veiðilæk

Stærsta fuglabúr í heimi?

Áður en einhver drífur sig upp að Norðurá til að frelsa fangann úr prísundinni verð ég að benda á að  risarúðurnar eru víst úr skotheldu gleri. Ég kynnti mér hver bæri ábyrgð á þessu milljónabruðli og komst að því að það er hinn snjalli auramaður Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. Eða öllu heldur hlutafélagið Veiðilækur, sem tók góðfúslega að sér að koma þessu í kring fyrir eiganda sinn. Vel og vandlega skipulagt þannig að þegar skíturinn hitti viftuna væri raunverulegur eigandi tryggður í bak og fyrir. Það er skrítið að lesa hvernig allt er í pottinn búið, en það gerði ég t.d. hér: http://eyjan.is/blog/2009/04/02/sigurdur-einarsson-skuldar-vis-200-milljona-krona-lan-gegn-vedi-i-halfbyggdu-sveitasetri/, hérna: http://www.visir.is/article/20081015/LIFID01/852707590 og hérna: http://www.dv.is/brennidepill/2008/10/23/brjalud-bygging-bankamanns/. Þetta eru ekkert nýjar fréttir.

Það er kaldranalega táknrænt að sjá maríuerluna læsta inn í þessarri gígantísku 840 fermetra líkkistu. Bara einn af minnisvörðunum um græðgisbrölt íslenskra "athafnamanna" Ég er ekki nógu gírugur til að fatta út frá allri lesningunni hvort þetta gímald með fimm baðherbergjum, stórri borðstofu, 50 fermetra vínkjallara, tvöföldum bílskúr og tveimur gufuböðum sem eru byggð inn í bergið undir setrinu kostar hálfan eða kvart milljarð en spyr. Hver á þetta núna?


Milljarður fyrir Maríuerlu?

IMG_4772Ég átti stefnumót við foss um helgina, var búinn að "plotta" á korti hvernig ég gæti keyrt og svo gengið að honum til að sjá og mynda úr nýrri átt. Eftir töluverðan villuakstur um ALLA fjallvegina á milli Þverárhlíðar og Norðurárdals lagði ég bílnum við keðjulæst hlið og arkaði svo af stað til fundar við fossinn með myndavél að vopni. Vegurinn lá upp að "sumarbústað" í byggingu sem ég hefði á einhverjum öðrum degi dáðst að, fyrst vegna staðarvalsins, sem er nánast fullkomið, glæsivillan kúrir milli klettabelta með yfirsýn yfir Norðurá, Grábrók og Baulu, og svo vegna arkítektúrsins. En þennan dag fylltist ég eiginlega bara viðbjóð yfir þessum ljóta flein í dásamlegu landslaginu. Ekki misskilja. Ég unni þeim þess algjörlega sem eru svo lánsamir að geta, fyrir verðmæti verka sinna, hugvits, snilli eða elju byggt sér svo glæst hús á svo fögrum stað, ég er bara búinn að læra undanfarna mánuði að oft er skammt á milli þokka og óþokka!

IMG_4755Ég ráfaði umhverfis slotið eins og túristi sem hefur stolist inn fyrir múrana umhverfis kastala rokkstjörnu og gat ekki varist þeirri tilfinningu að skammlaust, yfirgengilegt óþokkaóhóf skini úr hverjum drætti. Ógeðstilfinningin yfirskyggði þó algjörlega fegurðarskynið þegar ég sá að á bak við þrjátíu fermetra þreföldu rúðurnar flögraði maríuerla, sem hafði greinilega smogið inn um einhverja glufu á nýbyggingunni í leit að æti handa ungum sínum. Húsið var rammlæst og þar að auki þrælmerkt öryggisþjónustu sem fylgdist áreiðanlega með ferðum mínum í gegn um slatta af öryggismyndavélum sem vakta þennan ömurlega minnisvarða um fjárglæfrabruðl. Ég gat eiginlega ekki farið að brjóta þrjátíu fermetra rúðu fyrir spörfugl, það gekk ekki upp í mínum kolli.

IMG_4756Ég hryllti mig og hélt svo áfram ferð minni í leit að fossinum íðilfagra, maríuerlan hlyti að komast út sömu leið og hún komst inn. Fossinn Glanni olli mér ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn og skolaði úr mér gremjuna yfir fanganum í höll græðginnar.  Ég fékk gesti í heimsókn í sveitina mína um kvöldið og ákvað að fara næsta dag til að sýna þeim fossinn, veðrið var næstum eins gott og daginn áður.  Við fórum að sjálfsögðu til að skoða húsið og sáum að maríuerlan var því miður enn föst í prísundinni. Þarna flaug þessi ræfill á milli risavaxinna gluggagaflanna og rataði ekki út.

IMG_4768Veit einhver hver á þennan andstyggðar kofa? Ég er viss um að viðkomandi mun bruna rakleiðis upp í Borgarfjörð til að hleypa út maríuerlunni svo hún geti vitjað um dauðu ungana sína. Í leiðinni getur hann vonandi stoppað í glufurnar með peningaseðlum svo þessi hundruða milljóna fuglagildra haldi ekki áfram að veiða.


Skrugguskrækur lætur til sín taka - Óboðnum gestum úthýst prontó!

SkrugguskrækurÞegar ég lagðist á koddann í gærkvöldi heyrði ég í músíkalska starranum í næsta garði og hugsaði með mér... Ef ég væri spörfugl myndi ég syngja nákvæmlega svona... Ef ég gæti... Ef ég væri fugl! Fallegar, tónhreinar melódíur, hver þeirra blæbrigðaríkt tilbrigði við þá næstu á undan og enduðu flestar í bráðskemmtilegu skrafi, fullu af fuglahúmor dauðans. Nágrannafuglinn minn er snilldarfugl.

Seinna um nóttina, snemma morguns raunar, kvað aldeilis við annan tón... Starrinn skrækti nú háværum, gjallandi, hvellum og dauðans ákveðnum rómi, gargandi og ógnandi... "Köttur á ferð" hugsaði ég og viti menn, augnabliki síðar heyrði ég hringla dauft í kattabjöllunni. Bölvaður slöttólfurinn hraktist til í garðinum undan kröftugum loftárásunum og lúskraðist loks bleyðulega yfir girðinguna á bak við bílskúrinn.

Starrinn þveraði garðinn eins og orrustuþota og skrækti eins og hann ætti líf sitt að leysa á aðvífandi bíl sem krossaði lofthelgi hans úr hinni áttinni. Þessi fugl passar sitt torf fyrir allan peninginn.

...Ef ég væri fugl :)


Sveitasæla, trippatvist og fuglafans - Krumma rúllað upp!

TryppiHvítasunnuhelgarferðir hafa oftast verið kaldari en í ár, þessi var nefnilega bæði hlý og að öllu leyti frábærlega heppnuð. Slappað af fram í fingurgóma en að sjálfsögðu aðeins farið um sveitina með myndavélina að vopni. Margt bar fyrir linsu, meðal annars þetta spræka tryppi sem sprettir þarna úr spori niður hlíðina til að athuga hvort hin hrossin séu að fá eitthvað gott.

Þessu sinni var ekkert í boði en ég gæti vel hugsað mér að tæla það til mín seinna, þótt ekki væri til annars en að smella fleiri myndum af þessum fríða fola og hinum hrossunum úr flottasta stóði sem ég hef augum litið.

Fuglasöngurinn í sveitinni var sko ósvikinn! Lóur, spóar, hrossagaukar, þrestir, maríuerlur, steindeplar, stelkir, svanir, grágæsir og einstöku hrafn skemmtu allan sólarhringinn og býfuglar sveimuðu yfir flatmagandi mannverunum. Til að kóróna fuglafánuna hélt drifhvítur rjúpukarri til í grenndinni og flaug ropandi upp með miklu írafári ef tvífætlingar gerðu sig heimakomna.

Smáfuglarnir í borginni skjálfa þegar krummi krunkar, en hetja helgarinnar var hugdjarfur steindepill sem flaug eins og tundurskeyti með fjaðrafoki á eftir hrafninum sem vogaði sér of nærri hans umráðasvæði. Sá svarti varð að lúffa, Steini rúlaði þetta sinn.


Jarpa sófasettið var eins töfrateppi, og ekkert múður þetta sinn!

FriðsemdHún virkar kannski svolítið luraleg á þessarri mynd en saman þóttum við glæsileg tilsýndar þar sem við töltum umhverfis Rauðavatnið í draumaveðri í gærkvöldi. Við vorum þrír félagarnir, allir velríðandi, allir jörpu og auðvitað langflottastir.

Bara svo það sé á hreinu, þetta er semsé þrjóska hryssan sem stympaðist sem mest, og henti annarri jarpri af baki sér fyrir sosum viku. Í gær var hún eins og hugur minn og það er fátt skemmtilegra en að ríða út þegar reiðskjótinn bregst vel við öllum fyrirmælum, en sýnir þó stöðuga löngun til að láta gamminn geysa. Í hvert skipti sem meðreiðarsveinar mínir nálguðust fann ég hvernig hún gaf í, og ef töltið dugði ekki til (hún er frekar smágerð) vildi hún fara á stökk... en bara ef ég leyfði það.


Loksins... Eitt - eitt fyrir Vesturbænum. Týrólasöngvari, eat my shorts!

Ég gerði mína daglegu fuglasöngskönnun um sexleytið í morgun og viti menn... Sat ekki nema lítið sætt smáfuglapar á aspargrein og sá stutti alveg á BLÍSTRINU! Ég þarf endilega að komast að því hvaða smáfuglategund getur framleitt svona hljóð. Söngmeistarinn í Vogunum má algjörlega fara að herða sig.

SambasnillingurinnÞessi nýaðkomni snillingur ískraði, sífraði, tísti, skrafaði, skrækti, klikkaði, smellti, gaggaði og tikkaði af þvílíkri list að öllum áhyggjum var af mér létt. Hann hefur alveg greinilega eytt vetrinum í myrkviðum Amazon meðal páfagauka, piparfugla og perluhænsna. Á leið sinni í Vesturbæinn hefur hann auðheyranlega millilent í djassbúllum í Chicago til að pikka upp nýjustu taktana og percussiontæknina sem hann blandaði á ólýsanlegan hátt við samba, salsa og frumskógardrumbur. Þvílíkur virtúósi!

Einmanalegur sílamáfur hnitaði hátt yfir görðunum en í þetta skiptið sló hann hvorki beyg í smáfuglahjörtu né söngelskra fuglaskoðara. Suðræni sambasnillingurinn missti sko ekki taktinn og feilnótur voru ekki heldur á takteinum.

Læf is gúdd in Westtown.


Sundkóngurinn - Persónulegt met í ólympískri keppnislaug

tofulopp-syndandiAnnars hljómar sundKÓNGUR eitthvað ekki eins vel og sundDROTTNING. Látum það samt standa. Drengurinn stakk sér sem sagt í Laugardalslaugina og fleytti hreinlega kerlingar á kraftmiklu bringusundi, heilar 10 ferðir í ólympískri keppnislaug... Þetta var frómt frá sagt frækilega syntur hálfkílómetri! Allavega var ég lafmóður... Eftir báða sprettina!

Þarna sló ég sem sagt alveg áreiðanlega persónulegt met í 2x250m bringu. Ég tók ekki tímann og veit aukinheldur ekki hvað fyrra metið mitt var, ég bara fann það á mér!  Ég hef örugglega aldrei verið eins lengi að synda þessa vegalengd... Eða jafn fljótur Whistling


Alltaf fjör í Víðidal :)

Ég er góð, viljug meri!Að henda mannfólki af baki er holl og góð skemmtun. Þið sjáið bara hvað þessi hryssa er afslöppuð og í góðum fíling. Þarna smellti ég mynd af henni þar sem ég var nýbúinn að spretta af henni. Fyrst spretti hún mér af sér!

Einn af gömlu, reyndu hestamönnunum þarna í hverfinu sá til mín þar sem ég var að fara á bak, og reyna að tjónka við óþekktar brokkklárinn fyrir nokkrum dögum. Honum leist ekki meira en svo á aðfarirnar að hann spurði með allnokkrum þjósti: "Hver á þennan hest?... Já, hver á hann?" Þegar ég svaraði því spurði hann að bragði "Er honum eitthvað illa við þig?" Ég verð nú að taka fram að ég held að þessum öðlingum sem hafa verið svo góðir að lána mér reiðskjóta sé báðum frekar vel við mig. Og ég má líka til með að segja að nálægir hestamenn hafa verið mjög viljugir að hjálpa með ráðum og dáð þegar ég hef lent í klandri.

Stæltur og klár tamningamaður sem tók á móti þegar við höltruðum hnípin og rykfallin heim með klárana okkar spurði hvort hann mætti taka í skepnurnar, við héldum nú það. Sú jarpa stympaðist og þráaðist svo lengi við áður en hann gat komið henni frá húsinu að okkur, ólánlegustu hestamönnum Víðidals, leið ekki lengur eins illa að hafa lent í vandræðum. Það var sömuleiðis svolítill plástur á sálina þegar hann sagði að brúna merin væri ljónviljugur og spennandi hestur en alls ekki á færi viðvaninga að stýra henni.

Takk fyrir alla hjálpina kæru hestamenn og ég veit þið þakkið okkur líka fyrir skemmtunina. Það er alltaf fjör í Víðidal þegar við förum á hestbak Blush

 


Ekki af baki dottinn - EÐA HITT ÞÓ HELDUR!

Rólegheitahross?Hver er munurinn á staðfestu og heimsku? Eftir undanfarnar ófarir fannst mér að munurinn myndi einmitt kristallast í því að gera fleiri tilraunir með Draumahestinn "góða." Með því myndi ég akkúrat fara yfir línuna og laun heimskunnar yrðu í MINNSTA kosti brotið stolt. Það væri þó alls ekki það alvarlegasta, ég var bara ekki reiðubúinn að gjalda fyrir þvermóðskuna með brotnum beinum. Ónei heimskur er maður altént ekki. Bara staðfastur, viljasterkur, svolítið þrjóskur og kannski pínkulítið þver.

Bóndinn í ólátahesthúsinu á líka ýmsa valkosti og einn af þeim er þetta gæðablóð á myndinni hérna. Sjáið bara hvað hún er róleg og slök. Gæflyndið og afslappelsið uppmálað og hrekkleysið skín úr augunum. Þessi elska var sem sagt handsömuð, reiðtygjuð, hnökkuð og girt og síðan teymd frá húsi, ásamt stallsystur sinni. Að fenginni reynslu þótti nefnilega öruggara að fara með þær í nálægt gerði og byrja á smá hlýðniæfingum áður en farið væri á bak, svona rétt til að blessuð hrossin hefðu það ALVEG á hreinu hver væri húsbóndinn!

Það var byrjað á þessarri jörpu, sem er hið besta reiðhross (sófasett) en svolítið óþekk að koma sér af stað. Svolítið MIKIÐ óþekk á köflum! Sú brúna var fest við gerðið utanvert á meðan. Það skipti engum togum að undir eins þegar keyrinu var veifað til að koma þeirri jörpu úr sporunum ærðist brúna gæðablóðið, reif í tauminn sem var festur við hringgerðið og gerði sitt besta til að draga allt heila járnaruslið á eftir sér upp í Breiðholt! Ég róaði merina, losaði, og teymdi hana aðeins frá gerðinu. Allt gekk betur eftir það og síðan fékk hún að spretta svolítið úr spori nokkra hringi. Hún þurfti ekki mikla hvatningu, því get ég lofað.

Ég játa alveg að þegar hér var komið sögu var ég bara miðlungi bjartsýnn um afdrif mín, en lét engan bilbug á mér finna. Maður verður jú að reyna að halda í karlmennskuímyndina sem maður hefur komið sér upp og borgað fyrir með aumum rassi. Ég var búinn að fatta að það þyrfti ekki mikið að örva þetta brúna taugabúnt svo ég reið talsvert á eftir þeirri jörpu, sem þurfti svolítið á hvetjandi gómhljóðum og pískasveiflum að halda. Þetta leit bara vel út en þegar ég nálgaðist meðreiðarfraukuna var skyndilega eins og brúna kappreiðamerin mín fengi pata af heilli ljónahjörð á hælunum á okkur.

Hryssuskömmin sveigði með snöggu viðbragði út af reiðgötunni, stökk út í móann og hentist eins og trylltur vísundur yfir grjót, runna og tré. Ég skal trúa ykkur fyrir því að maður hugsar ekki margt þegar maður er að reyna að skipta á milli þess að róa trylltan vísund og hanga á hryggnum á honum en mér varð fljótlega ljóst að þetta myndi ekki enda nema á einn veg. Enn annar fundur við fósturjörðina var óumflýjanlegur og það var ekki sérlega spennandi tilhugsun á þessum hraða. Mér tókst svona nokkurn veginn að velja lendingarstaðinn en ekki lendingarstílinn. Í þann mund er öxlin á mér tók við öllum þunga líkamans sá ég út undan mér að jarpa meðreiðardaman mín var akkúrat að stinga sér i mölina mér til samlætis. Þvílík samstaða segi ég nú bara!


Niðurlag og eftirmálar burtreiðarinnar ógurlegu

Hestastelpan knáa, sú sem stangaði mölina svo fast að sverustu karlmenni kiknuðu í hnjáliðunum, tók sér mig til fyrirmyndar, reis úr rotinu eins og Lasarus forðum og skellti sér umsvifalaust aftur á bak rokgjörnu merinni. Mér hefði nú alveg fundist dynjandi lófatak vera viðeigandi, og jafnvel hefði einn og einn getað hrópað: "ÞAU LENGI LIFI"... en svona nokk er líklega daglegt brauð í þessum dal. Við máttum kannski þakka fyrir að vera ekki beðin um "ENCORE!" Ég fyrir mitt leyti hefði alveg látið uppklapp sem vind um eyru þjóta!

Forug upp fyrir haus stýrðum við jóum okkar hnakkakert til föðurhúsanna og það skal alveg játast að allur sunnudagurinn og meira til fór í að sleikja sárin og ná upp nokkurn veginn eðlilegri hreyfigetu í limina stirðu... Þeir fúnuðu allavega ekki í þessarri svaðilför.

Á mánudaginn uppgötvaði ég mér til hrellingar að ég var búinn að týna aðal-lyklakippunni... Þessarri með bankaauðkennisdæminu og vinnulyklunum sem ég má ALLS ekki glata. Eftir að hafa rakið öll mín spor um bæinn þveran og endilangan var aðeins eitt eftir. Í kvöld sneri ég til baka á glæpavettvanginn, þar sem Drauma-lánshesturinn grýtti mér svo fólskulega í fósturhörðina og viti menn... Þar var dýrindis kippan alls óskemmd... Mikið var ég feginn.

Rauður-skeiðariRétt áður en ég fann kippuna fann ég ryðgaða skafla-lukkuskeifu sem ég ætla að negla upp þegar ég finn mér góðan stað til að negla hana upp á. Þarf að fara að viða að mér kolryðguðum hóffjöðrum.

Það var eins gott að ég hafði myndavélina ekki með mér í þessa ólánsför, enda hefði ég af skiljanlegum ástæðum aldrei getað myndað öll fjörugustu atvikin. Þessvegna er ferðasagan að mestu skreytt friðsældar- og makindamyndum úr ólátahesthúsinu í Víðidalnum. Kúrekinn frá síðasta bloggi er sem sagt ekki ég!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband