Færsluflokkur: Íþróttir

Jarpa sófasettið var eins töfrateppi, og ekkert múður þetta sinn!

FriðsemdHún virkar kannski svolítið luraleg á þessarri mynd en saman þóttum við glæsileg tilsýndar þar sem við töltum umhverfis Rauðavatnið í draumaveðri í gærkvöldi. Við vorum þrír félagarnir, allir velríðandi, allir jörpu og auðvitað langflottastir.

Bara svo það sé á hreinu, þetta er semsé þrjóska hryssan sem stympaðist sem mest, og henti annarri jarpri af baki sér fyrir sosum viku. Í gær var hún eins og hugur minn og það er fátt skemmtilegra en að ríða út þegar reiðskjótinn bregst vel við öllum fyrirmælum, en sýnir þó stöðuga löngun til að láta gamminn geysa. Í hvert skipti sem meðreiðarsveinar mínir nálguðust fann ég hvernig hún gaf í, og ef töltið dugði ekki til (hún er frekar smágerð) vildi hún fara á stökk... en bara ef ég leyfði það.


Sundkóngurinn - Persónulegt met í ólympískri keppnislaug

tofulopp-syndandiAnnars hljómar sundKÓNGUR eitthvað ekki eins vel og sundDROTTNING. Látum það samt standa. Drengurinn stakk sér sem sagt í Laugardalslaugina og fleytti hreinlega kerlingar á kraftmiklu bringusundi, heilar 10 ferðir í ólympískri keppnislaug... Þetta var frómt frá sagt frækilega syntur hálfkílómetri! Allavega var ég lafmóður... Eftir báða sprettina!

Þarna sló ég sem sagt alveg áreiðanlega persónulegt met í 2x250m bringu. Ég tók ekki tímann og veit aukinheldur ekki hvað fyrra metið mitt var, ég bara fann það á mér!  Ég hef örugglega aldrei verið eins lengi að synda þessa vegalengd... Eða jafn fljótur Whistling


Alltaf fjör í Víðidal :)

Ég er góð, viljug meri!Að henda mannfólki af baki er holl og góð skemmtun. Þið sjáið bara hvað þessi hryssa er afslöppuð og í góðum fíling. Þarna smellti ég mynd af henni þar sem ég var nýbúinn að spretta af henni. Fyrst spretti hún mér af sér!

Einn af gömlu, reyndu hestamönnunum þarna í hverfinu sá til mín þar sem ég var að fara á bak, og reyna að tjónka við óþekktar brokkklárinn fyrir nokkrum dögum. Honum leist ekki meira en svo á aðfarirnar að hann spurði með allnokkrum þjósti: "Hver á þennan hest?... Já, hver á hann?" Þegar ég svaraði því spurði hann að bragði "Er honum eitthvað illa við þig?" Ég verð nú að taka fram að ég held að þessum öðlingum sem hafa verið svo góðir að lána mér reiðskjóta sé báðum frekar vel við mig. Og ég má líka til með að segja að nálægir hestamenn hafa verið mjög viljugir að hjálpa með ráðum og dáð þegar ég hef lent í klandri.

Stæltur og klár tamningamaður sem tók á móti þegar við höltruðum hnípin og rykfallin heim með klárana okkar spurði hvort hann mætti taka í skepnurnar, við héldum nú það. Sú jarpa stympaðist og þráaðist svo lengi við áður en hann gat komið henni frá húsinu að okkur, ólánlegustu hestamönnum Víðidals, leið ekki lengur eins illa að hafa lent í vandræðum. Það var sömuleiðis svolítill plástur á sálina þegar hann sagði að brúna merin væri ljónviljugur og spennandi hestur en alls ekki á færi viðvaninga að stýra henni.

Takk fyrir alla hjálpina kæru hestamenn og ég veit þið þakkið okkur líka fyrir skemmtunina. Það er alltaf fjör í Víðidal þegar við förum á hestbak Blush

 


Ekki af baki dottinn - EÐA HITT ÞÓ HELDUR!

Rólegheitahross?Hver er munurinn á staðfestu og heimsku? Eftir undanfarnar ófarir fannst mér að munurinn myndi einmitt kristallast í því að gera fleiri tilraunir með Draumahestinn "góða." Með því myndi ég akkúrat fara yfir línuna og laun heimskunnar yrðu í MINNSTA kosti brotið stolt. Það væri þó alls ekki það alvarlegasta, ég var bara ekki reiðubúinn að gjalda fyrir þvermóðskuna með brotnum beinum. Ónei heimskur er maður altént ekki. Bara staðfastur, viljasterkur, svolítið þrjóskur og kannski pínkulítið þver.

Bóndinn í ólátahesthúsinu á líka ýmsa valkosti og einn af þeim er þetta gæðablóð á myndinni hérna. Sjáið bara hvað hún er róleg og slök. Gæflyndið og afslappelsið uppmálað og hrekkleysið skín úr augunum. Þessi elska var sem sagt handsömuð, reiðtygjuð, hnökkuð og girt og síðan teymd frá húsi, ásamt stallsystur sinni. Að fenginni reynslu þótti nefnilega öruggara að fara með þær í nálægt gerði og byrja á smá hlýðniæfingum áður en farið væri á bak, svona rétt til að blessuð hrossin hefðu það ALVEG á hreinu hver væri húsbóndinn!

Það var byrjað á þessarri jörpu, sem er hið besta reiðhross (sófasett) en svolítið óþekk að koma sér af stað. Svolítið MIKIÐ óþekk á köflum! Sú brúna var fest við gerðið utanvert á meðan. Það skipti engum togum að undir eins þegar keyrinu var veifað til að koma þeirri jörpu úr sporunum ærðist brúna gæðablóðið, reif í tauminn sem var festur við hringgerðið og gerði sitt besta til að draga allt heila járnaruslið á eftir sér upp í Breiðholt! Ég róaði merina, losaði, og teymdi hana aðeins frá gerðinu. Allt gekk betur eftir það og síðan fékk hún að spretta svolítið úr spori nokkra hringi. Hún þurfti ekki mikla hvatningu, því get ég lofað.

Ég játa alveg að þegar hér var komið sögu var ég bara miðlungi bjartsýnn um afdrif mín, en lét engan bilbug á mér finna. Maður verður jú að reyna að halda í karlmennskuímyndina sem maður hefur komið sér upp og borgað fyrir með aumum rassi. Ég var búinn að fatta að það þyrfti ekki mikið að örva þetta brúna taugabúnt svo ég reið talsvert á eftir þeirri jörpu, sem þurfti svolítið á hvetjandi gómhljóðum og pískasveiflum að halda. Þetta leit bara vel út en þegar ég nálgaðist meðreiðarfraukuna var skyndilega eins og brúna kappreiðamerin mín fengi pata af heilli ljónahjörð á hælunum á okkur.

Hryssuskömmin sveigði með snöggu viðbragði út af reiðgötunni, stökk út í móann og hentist eins og trylltur vísundur yfir grjót, runna og tré. Ég skal trúa ykkur fyrir því að maður hugsar ekki margt þegar maður er að reyna að skipta á milli þess að róa trylltan vísund og hanga á hryggnum á honum en mér varð fljótlega ljóst að þetta myndi ekki enda nema á einn veg. Enn annar fundur við fósturjörðina var óumflýjanlegur og það var ekki sérlega spennandi tilhugsun á þessum hraða. Mér tókst svona nokkurn veginn að velja lendingarstaðinn en ekki lendingarstílinn. Í þann mund er öxlin á mér tók við öllum þunga líkamans sá ég út undan mér að jarpa meðreiðardaman mín var akkúrat að stinga sér i mölina mér til samlætis. Þvílík samstaða segi ég nú bara!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband