30.3.2008 | 14:11
Systir Klóthildur... Takk fyrir síðast :)
Ég brá fyrir mig betri fætinum í gær. Axlaði myndavélina og rölti stefnulaust í vestnorðaustur frá híði mínu. Aðalmarkmiðið var einvera og mér fannst alveg ótrúlegt hvað markmiðið misheppnaðist eitthvað ánægulega hvað eftir annað. Fyrsta stoppið var auðvitað kirkjugarður, ekkert annað hefði hæft markmiði mínu betur. Rölti þar um og las á legsteina... Fátt kveikir betri, sterkari og eitthvað öruggari jarðtengingu þegar hugurinn er á róti en að skoða legsteina. Í þessum tiltekna kirkjugarði hvíla eintómar nunnur, fyrir utan einstöku prest, og biskupar eru þar líka á stangli.
Eins og flestir vita taka nunnur sér nafn Maríu, þegar þær bindast Jesú, og svo er splæst einhverju nafni aftan við, áreiðanlega nafni einhverrar fyrirmyndarkonu, kannski nunnu! Enda eru nunnur í mínum huga, algjörlega án nokkurs vafa, fyrirmyndar konur. Ég var fimm ára þegar ég vissi það.
Þarna í nunnukirkjugarðinum "hitti" ég sem sagt gamla vinkonu sem ég kynntist, þótt ég hitti hana örsjaldan. Ég var á þeim aldri sem maður er skotfljótur að ákveða hvað er varið í, og þegar maður bindur órjúfandi tryggðabönd á augabragði. Systir María Klotilde var lágvaxin og gildvaxin og brosið hennar var svo breitt og hlýtt að það hefur ekkert fölnað í hugskoti ljóshærða hnokkans í meira en 40 ár.
Þótt ég skilji alls ekki allt sem að baki býr, finnst mér mögnuð tilhugsun að þessar kaþólsku konur fórnuðu öllum veraldlegum "gæðum", rifu sig upp með rótum og komu án nokkurða skilyrða til þessa hrjóstruga, fjarlæga lands í norðrinu til þess eins að gefa, líkna og þjóna, tryggar og trúar, til dauðadags. Ég pældi auðvitað ekki í öllu þessu þá. Allt var stórmerkilegt í bláum augum hins fimm ára pjakks. En samt held ég að ég hafi skynjað, og jafnvel skilið þetta allt betur en nú. Fimm ára erum við nefnilega ótrúlega skynugar skepnur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.