Fagurt galaði fuglinn sá... Eins og ryðguð róla!

Þar sem ég stóð, gestkomandi úti á svölum í Vogunum um daginn að fá mér "frískt loft", barst að eyrum mér sá fallegasti fuglasöngur sem ég hef evvör heyrt. Þarna fléttaði sannkallaður flaut-, tíst-, dilli-, blístr-, fíólín og pikkalóstroffu-snillingur saman ótrúlegustu krúsídúllur, tónstiga- og ryþmasamsetningar svo unun var að heyra. Sem einlægur fuglaáhugamaður fór ég strax að reyna að berja þennan melódíumeistara augum og varð steinhissa þegar ég uppgötvaði að þetta var bara ósköp  "venjulegur" starri! Þeir eru reyndar klárar hermikrákur og eiga það til að líkja eftir ýmissa kvikinda hljóðum og þar á meðal annarra fugla söng.

Þessi tiltekni þarna í Vogunum hefur greinilega búið við rætur Ólympsfjalls í vetur en þar ku næturgalar syngja fegurra en á öðrum stöðum í veröldinni. Nágrannar hans hafa áreiðanlega lika talið söngþresti, lævirkja, blæsöngvara, turtildúfur, týrólakór og synfóníuhljómsveit.

Ryðguð rólaÞessi vesturbæjarstarri hérna á myndinni kemur reglulega í garðinn hjá mér ásamt spúsu sinni að næra sig og finna efnivið í hreiður. Ef dæma má af söng hans, eða öllu heldur skrækjum eða skríkjum hefur hann ekki víða ratað heldur alið "manninn" í vesturbænum, í grennd við RYÐGAÐA RÓLU! Ég ætti reyndar ekki að vera að kvarta því þessi grey eru bjartasta vonin í mínu hverfi! Hvar er fuglasöngurinn sem ég vandist í vestur/miðbænum? Ég settist út á svalir í morgun í algjörri þögn og hefði gefið mikið fyrir eins og einn ryðgaðan róluskræk!

Eina fuglahljóðið sem ég heyrði var mávagarg úr fjarska. Eitt mávagarg, nota bene! Eru mávar, hrafnar og kettir virkilega búnir að útrýma söngfuglunum í vesturbænum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband