Sveitasæla, trippatvist og fuglafans - Krumma rúllað upp!

TryppiHvítasunnuhelgarferðir hafa oftast verið kaldari en í ár, þessi var nefnilega bæði hlý og að öllu leyti frábærlega heppnuð. Slappað af fram í fingurgóma en að sjálfsögðu aðeins farið um sveitina með myndavélina að vopni. Margt bar fyrir linsu, meðal annars þetta spræka tryppi sem sprettir þarna úr spori niður hlíðina til að athuga hvort hin hrossin séu að fá eitthvað gott.

Þessu sinni var ekkert í boði en ég gæti vel hugsað mér að tæla það til mín seinna, þótt ekki væri til annars en að smella fleiri myndum af þessum fríða fola og hinum hrossunum úr flottasta stóði sem ég hef augum litið.

Fuglasöngurinn í sveitinni var sko ósvikinn! Lóur, spóar, hrossagaukar, þrestir, maríuerlur, steindeplar, stelkir, svanir, grágæsir og einstöku hrafn skemmtu allan sólarhringinn og býfuglar sveimuðu yfir flatmagandi mannverunum. Til að kóróna fuglafánuna hélt drifhvítur rjúpukarri til í grenndinni og flaug ropandi upp með miklu írafári ef tvífætlingar gerðu sig heimakomna.

Smáfuglarnir í borginni skjálfa þegar krummi krunkar, en hetja helgarinnar var hugdjarfur steindepill sem flaug eins og tundurskeyti með fjaðrafoki á eftir hrafninum sem vogaði sér of nærri hans umráðasvæði. Sá svarti varð að lúffa, Steini rúlaði þetta sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband