Færsluflokkur: Lífstíll
7.4.2008 | 19:42
Yfirreiðin - Miðbik burtreiðanna ógurlegu
Þar sem undirritaður er sönn hetja kleif hann hið brotlega hross aftur ótrauður (les: bæði skelkaður og lerkaður). Fákurinn var svo tugtaður nett af yfirtamninga- sérfræðingi burtreiðanna og þýddist klárinn riddarann hugumprúða að mestu eftir það. Var svo förinni haldið áfram í humátt á eftir föruneytinu, sem af stakri smekkvísi hafði haldið för sinni áfram frekar en að fylgjast með reiðmennskutilburðum mínum.
Í einu reiðstoppinu var það hins vegar fararskjóti tugtarans sem var með uppistand, en þar sem þetta var minn dagur var það auðvitað ólukkuknapi dagsins sem varð fyrir barðinu á hrossinu. Þar sem ég hélt í reiðskjótann minn og var í mesta grandaleysi að spenna á mig hjálminn ákvað blessuð merin tugtarans að rjúka af stað þegar hann vippaði sér í hnakkinn, og tók stefnuna akkúrat á milli mín og brotahrossins.
Verandi hetja (eins og kom fram fyrr í sögunni) hélt ég hið fastasta í tauminn með einarri... og hraðaði mér sem mest ég mátti að smella hökubandinu með hinarri, með þeim árangri að ég hraut á kné, hestur og knapi riðluðust yfir mig á skítugum skeifunum og hlaut ég bylmingshögg með afturhófunum að launum fyrir hugprýðina. Höggið lenti á hálfspenntum hjálminum sem hrökk af mér við hamaganginn. Viðstaddir voru allir sammála um að hruflað hné og fleiðraður lófi væri algjört lágmark, miðað við aðfarirnar!
Ófarir dagsins voru alls ekki að baki...
(Þess má geta að faxprúða friðsemdarhryssan á myndinni er alsaklaus af öllum óspektum)
Lífstíll | Breytt 8.4.2008 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2008 | 11:27
Burtreiðarmartröð fyrir allan peninginn
Hvað er vinalegra en þegar hestar eru að láta vel að hvorum öðrum eins og hérna sést svo fallega. Þetta er svona týpískur "ég-klóra-þér-ef-þú-klórar-mér" hestadíll sem allir kannast við. Ég snaraðist því vonglaður á bak þessum vorblíða draumaklári um helgina. Veðrið var eins og best verður á kosið og ætlunin var að ríða góðan hring um Elliðavatnið með kráarstoppi í þarþarnæsta hesthúsahverfi og tilheyrandi huggulegheitum.
Það byrjaði ekki glæsilega því hrossið vatt sér eins og sjálfur miðgarðsormur undir mér, þumbaðist, þjösnaðist og þráaðist. Vorblíðan var fokin út í veður og vind og hann var ekki að fara í neinn andskotans reiðtúr, ónei! Eftir snarpa (en skamma) viðureign kyssti óæðri endinn á mér fósturjörðina með miklum gný en þar með voru ófarirnar aðeins rétt að byrja.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)