Þriðja burtreiðin sama daginn... er það ekki aaaaaðeins of mikið af því góða?

Það mátti nú ekki minna vera en að sá sem reið undan sér hrossinu (yfir mig semsagt) færi og sækti blessaðan afbrotaklárinn (þennan sem skildi mig eftir í rykinu fyrr um daginn.) Ég hafði sleppt taumnum öðruhvoru megin við höfuðhöggið og ótætis jálkurinn lét sig að sjálfsögðu hverfa með það sama. Hann var sóttur, hross og knapar pöruðu sig á ný og aftur var haldið af stað.

rodeo-riderAð sjálfsögðu var svo stoppað á næsta hvílustað, því það verður alltaf að gefa blessuðum hófaljónunum tækifæri til að safna kröftum fyrir næsta hrekkjabragð. Að hvíldinni aflokinni var það svo ein meðreiðarfraukan mín sem vippaði sér léttilega á bak sinni hryssu... Merarófétið rauk af stað áður en reiðkonan náði að festa sig í sessi og við þurftum að horfa upp á enn eina burtreiðina. Ég var kominn í hnakkinn á mínum óþekktarhesti og þurfti ásamt öllu föruneytinu að horfa upp á það þegar skvísan hossaðist aftur á lend og skoppaði svo til fundar við fósturjörðina, þó með töluvert meiri þokka en ég fyrr um daginn. Það fór kliður um réttina þegar hún stangaði mölina með hjálminum svo undir tók í fjöllunum.

Sumir hlupu til að stumra yfir þeirri afbakidottnu, aðrir ruku til að ná í strokuhestinn og það tók vonandi enginn eftir því þegar ég steig í flýti af baki til að huga loksins að óförum annarra. Stígvélið mitt var semsagt ennþá fast í ístaðinu og hross-andskotans-melurinn bakkaði á fullu... alveg gjörsamlega að plotta að stinga af líka, með mig blaðskellandi á eftir sér eins og hvert annað drasl... Þá hefði ekkert vantað upp á ródíóstemmninguna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

... þvílík ævintýri... og þú enn lifandi... til hamingju með það!

Brattur, 8.4.2008 kl. 21:01

2 Smámynd: Tófulöpp

Takk kærlega, alveg sprellifandi meira að segja... Og svo harðákveðinn í því að fá þetta ólukkans hross til að hlýðnast mér. Ég er viss um að tigercopper myndi kalla þetta einhvers konar fetisma!

Tófulöpp, 9.4.2008 kl. 01:11

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahahahaha

Þvílíkur hestamaður... ég er með tárin í augunum.... ekki af meðaumkvun samt heldur grenja ég úr hlátri hérna. 

Anna Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband