9.4.2008 | 01:51
Niðurlag og eftirmálar burtreiðarinnar ógurlegu
Hestastelpan knáa, sú sem stangaði mölina svo fast að sverustu karlmenni kiknuðu í hnjáliðunum, tók sér mig til fyrirmyndar, reis úr rotinu eins og Lasarus forðum og skellti sér umsvifalaust aftur á bak rokgjörnu merinni. Mér hefði nú alveg fundist dynjandi lófatak vera viðeigandi, og jafnvel hefði einn og einn getað hrópað: "ÞAU LENGI LIFI"... en svona nokk er líklega daglegt brauð í þessum dal. Við máttum kannski þakka fyrir að vera ekki beðin um "ENCORE!" Ég fyrir mitt leyti hefði alveg látið uppklapp sem vind um eyru þjóta!
Forug upp fyrir haus stýrðum við jóum okkar hnakkakert til föðurhúsanna og það skal alveg játast að allur sunnudagurinn og meira til fór í að sleikja sárin og ná upp nokkurn veginn eðlilegri hreyfigetu í limina stirðu... Þeir fúnuðu allavega ekki í þessarri svaðilför.
Á mánudaginn uppgötvaði ég mér til hrellingar að ég var búinn að týna aðal-lyklakippunni... Þessarri með bankaauðkennisdæminu og vinnulyklunum sem ég má ALLS ekki glata. Eftir að hafa rakið öll mín spor um bæinn þveran og endilangan var aðeins eitt eftir. Í kvöld sneri ég til baka á glæpavettvanginn, þar sem Drauma-lánshesturinn grýtti mér svo fólskulega í fósturhörðina og viti menn... Þar var dýrindis kippan alls óskemmd... Mikið var ég feginn.
Rétt áður en ég fann kippuna fann ég ryðgaða skafla-lukkuskeifu sem ég ætla að negla upp þegar ég finn mér góðan stað til að negla hana upp á. Þarf að fara að viða að mér kolryðguðum hóffjöðrum.
Það var eins gott að ég hafði myndavélina ekki með mér í þessa ólánsför, enda hefði ég af skiljanlegum ástæðum aldrei getað myndað öll fjörugustu atvikin. Þessvegna er ferðasagan að mestu skreytt friðsældar- og makindamyndum úr ólátahesthúsinu í Víðidalnum. Kúrekinn frá síðasta bloggi er sem sagt ekki ég!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 12:10 | Facebook
Athugasemdir
Vont að detta í möl og á hart undirlag, fórum með hrekkjalóma út í mýri eða sandbleytu, virkaði fínt og endaði ávallt með samkomulagi um að knapinn fengi að sitja á.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 12.4.2008 kl. 12:22
Úff Þorsteinn... Takk kærlega. Allar ráðleggingar eru vel þegnar, og sem betur fer eru hestamenn alveg voðalega hjálpsamir þegar þeir sjá hálfgerða viðvaninga sem eru "in over their heads." En það er gaman að þessu, maður er kannski orðinn vitlaus að vera eins og þrjóskur þverhaus að taka að sér að ríða svona óþekktarhrossum en jújú... maður er víst þessi gerð af vitleysingi þá :) Þið verðið bara að trúa því... Mér finnst flest skemmtilegra en að detta af baki!
Tófulöpp, 12.4.2008 kl. 21:31
Þetta er nú ekki hægt. Þú ert með einn gest í dag. Mig. Og lumar á þessum óborganlega fyndnu hraksögum af sjálfum þér.
Má ég ekki vísa nokkrum gestum á síðuna þína ? (taka úrdrátt)
Anna Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 21:32
Hahhaha takk kærlega fyrir hólið. Hverjum finnst það ekki gott? Og voðalega finnst mér þú kurteis að spyrja, ég hefði bara gert þetta óspurt, kann greinilega ekkert bloggetiquette . Þér er alveg guðvelkomið að vísa á blaðrið í mér ef þú heldur að fleiri hafi gaman að... En ég lofa ekkert að ég anni eftirspurn strákurinn er voðalega bissí sko !
Tófulöpp, 16.4.2008 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.